Fréttir

Enginn á að sætta sig við áreitni, einelti eða annað ofbeldi

15.11.2017

Í rannsókn sem gerð var af Starfsgreinasambandinu árið 2015 kemur fram að 40% starfsfólks í þjónustustörfum á Íslandi hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í vinnu. Enginn á að sætta sig við kynferðislega áreitni, einelti eða annað ofbeldi á vinnustöðum. Vinnustaðir eiga að hafa forvarnar– og viðbragðsáætlun við neikvæðum samskiptum á vinnustað og stjórnendum ber að taka á málum ef þau koma upp.

Samkvæmt reglugerð um vinnuverndarstarf og forvarnir á að vera yfirlýst stefna á vinnustöðum sem segir til um hver viðmið vinnustaðarins eru í samskiptum og hver viðbrögðin verða ef vandamál koma upp. Starfsfólk á að vera upplýst um þessa forvarnastefnu.  
Áreitni á vinnustað, einelti og annað ofbeldi eru viðkvæm og alvarlegt mál sem stjórnendur eiga að bregðast strax við og koma í veg fyrir. Árangursríkast er að fyrirbyggja slíkt með góðri stjórnun og skýrum viðmiðum í samskiptum á vinnustað.

Birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni geta verið margvíslegar. Hún getur komið fram í dónalegum bröndurum, kynferðislegum athugasemdum, augnagotum eða glápi. Óviðeigandi snerting, myndatökur, óviðeigandi athugasemdir um kynferðisleg málefni og útlit, óvelkomin samskipti á samfélagsmiðlum eða jafnvel beiðni um óvelkomið kynferðislegt samband. Óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni og kynhneigð fólks, telst vera kynbundin áreitni.

Afleiðingar af óviðeigandi hegðun á vinnustað geta varað lengi og jafnvel í mörg ár eftir að starfsfólk er komið úr þeim aðstæðum sem leiddu til þeirra, auk þess að hafa mikil áhrif á vinnustaðinn.

Markmið vinnuverndarstarfs er að fyrirbyggja og draga úr vandamálum innan vinnustaða og stuðla þannig að vellíðan starfsfólks.
Fyrirbyggja má óviðeigandi hegðun á margvíslegan hátt, meðal annars með því að innleiða áætlun um forvarnir og viðbrögð við áreitni, einelti og ofbeldi og skapa þannig meðvitund um félagslegt vinnuumhverfi. Mikilvægt er að taka strax á neikvæðu tali og hegðun starfsfólks og hafa reglubundna fræðslu um áhættuþætti í vinnuumhverfi. Fræðsla þarf að vera bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur til þess að hún skili tilætluðum árangri. 

Fræðsluefni


Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er ýmiss konar fræðsluefni um það hvernig megi efla forvarnastarf á vinnustöðum og koma í veg fyrir heilsutjón. Á eftirfarandi slóðum eru leiðbeiningar um að við sættum okkur ekki við áreitni, einelti og annað ofbeldi á vinnustöðum:

Leiðbeiningarit sem byggð eru á reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni;

Hljóðglærur til að nota á vinnustöðum t.d á fræðslufundum:

https://www.youtube.com/watch?v=WgUudjeY3Lg
https://www.youtube.com/watch?v=PmuV3u6t_NU