Fréttir

Aftur til vinnu eftir COVID-19 veikindi

30.4.2020

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru algengustu einkenni COVID-19 hiti, þurr hósti, þreyta og beinverkir. Sumir smitast þó án þess að sýna einkenni og líður ekki illa. Flestir (eða um það bil 80 prósent) ná sér af sjúkdómnum án sérstakrar meðferðar. Um það bil einn af hverjum sex sem fær 

COVID-19 verður mjög veikur og á erfitt með andardrátt. Meiri líkur eru á að aldraðir og þeir sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál, eins og háan blóðþrýsting, hjarta- eða lungnavandamál og sykursýki, veikist en aðrir.

Atvinnurekendur þurfa að huga sérstaklega að því starfsfólki sem hefur veikst alvarlega af COVID-19 jafnvel eftir að það hefur verið úrskurðað fært til vinnu. Það eru vísbendingar um að þeir sem hafa sýkst af kórónuveirunni gætu verið með skerta lungnastarfsemi í einhvern tíma á eftir þrátt fyrir að hafa náð sér af sjúkdómnum. Starfsfólk í þessari stöðu gæti þurft ákveðinn sveigjanleika og aðlögun við komuna aftur til starfa.

Starfsfólk sem hefur veikst illa eða þurft að dvelja á gjörgæslu sökum COVID-19 gæti jafnframt þurft að takast á við sérstakar áskoranir þegar það snýr aftur til vinnu. Mikilvægt er að vinnustaðurinn og starfsmaðurinn verði í góðu samráði við heilbrigðisstarfsmenn ef svo ber undir. Eftirfarandi getur átt við um þá sem hafa dvalið á gjörgæslu samkvæmt leiðbeiningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Vinnuverndarstofnunar Evrópu.

  • Vöðvaslappleiki. Hann er þeim mun alvarlegri því lengur sem einhver hefur verið á gjörgæslu. Minnkuð vöðvastarfsemi getur einnig lýst sér í öndunarörðugleikum svo dæmi sé tekið. Einkenni sambærileg áfallastreituröskun eru sömuleiðis þekkt eftir legu á gjörgæslu (e. Post Intensive Care Syndrome (PICS)). Áætlað er að það eigi sér stað hjá 30-50 prósentum fólks sem þarf að leggjast inn á gjörgæslu.
  • Minnis og einbeitingarvandamál. Þessi vandamál koma oft fram eftir nokkurn tíma og jafnvel töluvert eftir að viðkomandi snýr aftur til vinnu. Vandamálin sem geta koma fram varða minni og einbeitingu, erfiðleika við að framkvæma verk á fullnægjandi hátt og skert hæfni til að leysa verkefni. Mikilvægt er að stjórnendur séu á verði gagnvart þessu. Góður stuðningur og leiðsögn skiptir sköpum því það getur tekið tíma fyrir starfsmanninn að ná upp fyrri hæfni.
  • Langur tími þar til snúið er aftur til vinnu. Gögn sýna að 25-30 prósent þeirra sem þurfa að leggjast inn á gjörgæslu þróa með sér vandamál óháð aldri. Hjá um það bil helmingi sjúklinga tekur það allt að því ár að jafna sig nægjanlega til að geta snúið aftur til vinnu og allt að því þriðjungur snýr ekki aftur.

Læknar og heilbrigðisstarfsfólk sem sérhæfir sig í vinnuvernd er best í stakk búið að ráðleggja hvernig huga eigi að starfsfólki sem hefur verið veikt og hvernig best er að aðlaga vinnuaðstæður að hverjum starfsmanni. Mikilvægt er að leita sameiginlegra lausna á vinnustaðnum og ætti atvinnurekandi eftir fremsta megni að nálgast þessi mál af nærgætni og trúnaði gagnvart starfsfólki. Þá er gott að hafa í huga að starfsfólk, sem hefur verið veikt af COVID-19, kann að upplifa sig smánað og mismunað. Mikilvægt er að vanda til verka í þessum efnum til að koma í veg fyrir að fólk heltist úr lestinni af vinnumarkaði vegna eftirkasta af völdum COVID-19.