Fréttir

Eftirlitsátak í fiskvinnslu 2015

11.6.2015

Vinnuslysum í fiskvinnslu hefur fjölgað síðustu ár. Vinnueftirlitið kallaði forsvarsmenn fiskvinnslunnar og verkalýðshreyfingarinnar til fundar 2013 og upplýsti um stöðuna. Slys í fiskvinnslu tengjast oftast vélum og tækjum og algengast er að fólk yngra en 25 ára slasist.

Vorið 2013 voru send bréf til u.þ.b. 200 fiskvinnslufyrirtækja með upplýsingum um ástandið og gátlisti til að fara yfir vinnuumhverfið. Í framhaldinu heimsótti Vinnueftirlitið 109 fyrirtæki. Í þessum heimsóknum voru gefin 394 fyrirmæli um úrbætur. Þetta skilaði ekki þeim árangri sem vonast var eftir, vinnuslysum í fiskvinnslu fækkaði ekki árið 2014.

Vinnueftirlitið ákvað í ársbyrjun 2015 að grípa til frekari aðgerða. Til að meta ástandið í greininni, var í febrúar og mars sent teymi sérfræðinga sem skoðaði ítarlega fimm stór fiskvinnslufyrirtæki í öllum landshlutum. Markmiðið var fyrst og fremst að skoða öryggisbúnað véla og tækja. Niðurstaða þessara skoðana er að ástandið var mjög líkt á öllum stöðunum fimm. Grundvallar öryggisbúnaður véla og tækja var allt of oft ekki í lagi. Nokkur dæmi:

  • Algengt var að öryggisbúnaður á vélum og tækjum væri ekki í lagi
  • Færibönd voru opin og á þau vantaði oft neyðarstopp
  • Víða voru opnir öxlar og öxulendar
  • Ástand og umgengni við fiskikör var verulega ábótavant
  • Frystiklefar uppfylltu ekki öryggiskröfur

Teymi sérfræðinga Vinnueftirlitsins mun heimsækja fiskvinnslufyrirtæki í sumar og haust. Í ljósi þess að slysum hefur ekki fækkað mun Vinnueftirlitið beita harðari aðgerðum en hingað til.

Vinna verður undantekningarlaust stöðvuð ef öryggisbúnaður véla og tækja reynist ekki í lagi.

Vinnueftirlitið hefur sent dreifibréf til forsvarsmanna fiskvinnslufyrirtækja þar sem eru frekari leiðbeiningar og hjálp til að gæta öryggis og ýmis dæmi með myndum um lausnir á algengum vandamálum.