Fréttir

Dreifbréf vegna öryggis við kolsýrukælikerfi

28.11.2017

Dreifibréf

Vinnueftirlitið hefur fengið vitneskju um uppsetningu nokkurra kolsýrukerfa í verslanir og kæligeymslur hér á landi. Vinnueftirlitið hefur sent dreifibréf til verkfræðistofa, hönnuða og fyrirtækja sem vinna við að hanna kolsýrukælikerfi eða nota slík kerfi til kælingar eða frystingar.

Öryggi

Kolsýrukælikerfi vinna undir töluverðum þrýstingi og geta verið varhugaverð sé hönnun eða uppsetning þeirra ekki í lagi. Ef kerfin eru ekki rétt hönnuð eða ekki rétt upp sett getur myndast mikill þrýstingur í þeim með tilheyrandi sprengihættu.

Í kolsýrukerfi fyrir meðal stóran kæli í verslun þarf að huga að því að öryggislokar séu til staðar til að koma í veg fyrir að þrýstingur aukist of mikið. Meta þarf þörfina á fjölda kolsýruskynjara ef kolsýra lekur inn í rýmið við notkunarstaði. Einnig þarf að vera loftun niðri við forðabúr kolsýrutanka, allt eftir stærð og legu.

Merkingar og úttekt

Öll kolsýrukerfi eiga að vera CE-merkt og vera vottuð af þriðja aðila. Þessi þriðji aðili sem tekur út hönnun og virkni kerfisins þarf að hafa til þess kunnáttu og tilskilin leyfi.

Eftirlit

Vinnueftirlitið mun á næstunni fara til þeirra aðila sem hafa sett upp kolsýrukerfi í sín fyrirtæki og krefja fyrirtækin um gögn sem sýna fram á að kerfin séu rétt merkt og tekin út af til þess hæfum aðila. 
Ef fyrirtækin hafa ekki tilskilin gögn mun Vinnueftirlitið stöðva rekstur og notkun kerfanna.