Fréttir

Byggingarkranar, fréttatilkynning

3.3.2017

Vegna mikillar umræðu um byggingarkrana, hættum, óhöppum og hugsanlegum slysum sem af þeim kunna að hljótast, vill Vinnueftirlitið koma eftirfarandi á framfæri.

Hjá Vinnueftirlitinu eru tvö svið sem sjá um eftirlit. Annars vegar fyrirtækjaeftirlit, sem hefur eftirlit með öllum fyrirtækjum, þar með talið byggingarvinnustöðum. Hins vegar tækjaeftirlit, sem sér um skoðanir og eftirlit á vinnuvélum og tækjum. Milli þessara sviða er mikið og gott samstarf.

Skoðanir Vinnueftirlitsins á byggingakrönum eru með þeim hætti að umráðamaður kranans þarf að fá tækjaeftirlitsmann Vinnueftirlitsins til að taka út hverja uppsetningu á krananum áður en taka má hann í notkun á nýju vinnusvæði. Við skoðun á uppsettum krana er prófaður allur öryggisbúnaður og öryggisútsláttur kranans auk þess sem staðsetning hans og undirlag er skoðað sérstaklega. Umráðamaður verður að geta sýnt fram á að undirlag kranans sé nógu traust og er það venjulega gert með þjöppumælingu undirlags.

Auk þessara skoðana eru byggingakranar skoðaðir árlega. Þá er allt burðarvirki kranans yfirfarið; vírar, stög og festingar auk fyrrnefnds öryggisbúnaðar. Þess utan fylgjast fyrirtækjaeftirlitsmenn Vinnueftirlitsins nokkuð reglulega með byggingarvinnustöðum. Þeir gera athugasemdir við verktaka og láta tækjaskoðunarmenn Vinnueftirlitsins vita ef þeir sjá að tæki eru ekki rétt notuð og ef tækjum eða umhverfi þeirra hefur verið breytt. Byggingarkranar eru meðal þeirra tækja sem eru undir ströngustu eftirliti Vinnueftirlitsins.

Í þeim tilfellum sem mest hafa verið í umræðunni um byggingarkrana undanfarið ár hafa ábendingar og athugasemdir Vinnueftirlitsins átt við full rök að styðjast.