Fréttir

Búnaður til bjórframleiðslu uppfylli nauðsynlegar öryggiskröfur

14.6.2019

BjortankarVinnueftirlitið vill vekja athygli á að innflytjendur þrýstibúnaðar frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem ætlaður er til bjórframleiðslu gangi úr skugga um að slíkur búnaður uppfylli þær kröfur sem reglugerð nr. 1022/2017, um þrýstibúnað, gerir um samræmisyfirlýsingar, CE-merkingar og vottanir frá samræmismatsstofu og þar með nauðsynlegar öryggiskröfur.

Eingöngu er heimilt að taka í notkun hér á landi þrýstibúnað sem uppfyllir skilyrðum reglugerðarinnar en hún gildir um allan búnað sem er með þrýsting yfir 0,5 bar.

Alltaf þegar um er að ræða samþjappaðar lofttegundir getur skapast sprengihætta og eykst hættan þegar tankarnir stækka (rýmdin eykst) og þrýstingur eykst. Sem dæmi gefur þannig 10 lítra tankur á 100 börum 1000 barlítra en 4000 lítra tankur á 2 börum gefur okkur 8000 barlítra. Getur því veruleg hætta stafað af slíkum búnaði sem staðsettur er þar sem fólk er, hvort sem það er að störfum eða sér til ánægju.

Innflytjendur slíks búnaðar þurfa því að geta sýnt fram á gilda samræmisyfirlýsingu, vottanir frá samræmismatsstofu og CE merkingu fyrir búnaðinn þegar Vinnueftirlitið fer fram á það en stofnunin fer með markaðseftirlit með þrýstibúnaði hér á landi.

Vinnueftirlitið lítur það alvarlegum augum þegar slíkur þrýstibúnaður er í notkun þegar ekki liggur fyrir með viðunandi hætti að búnaðurinn uppfylli þær öryggiskröfur sem gerðar eru til þeirra lögum samkvæmt. Ef slíkur búnaður uppfyllir ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru til hans þá er sprengihætta af honum.

Vinnueftirlitið vill beina þeim tilmælum til allra þeirra sem kaupa vélar og tækjabúnað frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins að skoða vel hvort slíkur varningur sé CE merktur og að honum fylgi gild samræmisyfirlýsing framleiðanda.