Fréttir
  • Vinnuvernd_til_framtidar

Áskoranir í vinnuvernd til framtíðar

15.9.2020

„Vinnan í dag og til framtíðar - áskoranir í vinnuverndarstarfi norrænu vinnueftirlitanna“ (e. Work today and in the future - Perspectives on Occupational Safety and Health challenges and opportunities for the Nordic labour inspectorates), er ný skýrsla sem kynnt var á norrænum fjarfundi sem Vinnueftirlitið á Íslandi stóð að í dag ásamt hinum norrænu vinnueftirlitsstofnunum og Norrænu fræðslustofnuninni í vinnuvernd, NIVA . Fundargestir voru um 70 talsins frá öllum Norðurlöndunum.

Skýrslan var unnin af norrænum starfshópi um þróun vinnu og vinnumarkaðar á komandi tímum (the Nordic Future of Work Group) að beiðni forstjóra vinnueftirlitanna á Norðurlöndunum. Markmiðið er að búa þau undir breytingar á vinnuumhverfi framtíðarinnar.

Nordic future of Work hópurinn hefur frá árinu 2016 unnið að því að varpa ljósi á þær áskoranir sem fram undan eru á vinnumarkaði og hvernig best sé að mæta þeim. Skýrslan er önnur af tveimur sem hópurinn gefur út um þetta efni.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar í tengslum við framtíð vinnunnar en hingað til hafa þær ekki fjallað um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum og eftirlit með því.

Upptaka frá fundinum

Miklar breytingar í farvatninu

„Við stöndum á tímamótum. Starfsumhverfi fólks um heim allan er að taka miklum breytingum og ný störf að verða til. Vinnuvernd þarf eftir sem áður að vera lykilþáttur í starfsemi allra fyrirtækja og stofnana. Atvinnulífið er síbreytilegt en grunngildi vinnuverndar eru þau sömu. Þau verða ávallt að tryggja velferð vinnandi fólks og að það komi heilt heim úr vinnu, hvar svo sem það vinnur og hvernig sem vinnan er innt af hendi,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.

Gert er ráð fyrir því að tækniframfarir, alþjóðavæðing, umhverfisáhrif og lýðfræðilegar breytingar, eins og hlutfallsleg fjölgun eldra fólks og fólksflutningar, séu þeir lykilþættir sem komi til með að hafa áhrif á vinnuumhverfi framtíðarinnar. Þeim fylgja bæði ógnanir og tækifæri í vinnuverndarstarfi sem þarf að huga að og bregðast við.

Stafræn tækni eins og gervigreind, þjarkar (vélmenni) og þrívíddarprentun munu til að mynda auka skilvirkni og framleiðni þegar kemur að vörum og þjónustu en þær skapa jafnframt bæði líkamlegar og sálfélagslegar hættur. Þá gerir hraði breytinganna það að verkum að löggjafinn nær í sumum tilfellum ekki að fylgja þeim eftir sem getur staðið vinnuverndarstarfi fyrir þrifum.

Meiri hreyfanleiki á vinnumarkaði og breytilegri ráðningarform hafa ýmsa kosti og gera það til dæmis að verkum að störf þurfa ekki að vera bundin við búsetu í ákveðnum landshluta eða landi. Aftur á móti geta þessar breytingar dregið úr samtakamætti starfsfólks og torveldað ýmis konar vinnuverndarstarf.

Fjarvinna sem hægt er að stunda í auknum mæli með hjálp tækninnar hefur líka ýmsa ótvíræða kosti en þegar skil á milli vinnu og einkalífs eru ekki skýr benda rannsóknir til að það geti haft skaðleg áhrif á heilsu og einkalíf. Hingað til hefur vinnuverndarstarf að mestu leyti farið fram á vinnustöðum en nú þegar fyrirséð er að fleiri vinni heima þarf að aðlaga vinnuverndina að því.

Þá hafa hinar ýmsu tækniframfarir þau áhrif að fólki sem vinnur kyrrsetuvinnu fjölgar með tilheyrandi heilsufarsáhættum. Á sama tíma liggur fyrir að þeir sem starfa í heilbrigðis- og félagsþjónustu búa við ýmsar hættur í vinnuumhverfinu sem huga þarf að, ekki síst varðandi álag á hreyfi- og stoðkerfi.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur síðan dregið fram í dagsljósið ýmsar brotalamir tengdar vinnuvernd á alþjóðavísu eins og skort á persónuhlífum og undirstrikað að vinnuverndarsjónarmið þurfa að fá meira vægi hjá alþjóðastofnunum þegar kemur að því að undirbúa viðbrögð við samskonar faröldrum í framtíðinni.

Veðurfarsbreytingar og umhverfisáhrif hafa svo tvennskonar áhrif á vinnuvernd. Annars vegar bein áhrif vegna tíðari náttúruhamfara sem auka áhættu fyrir starfsmenn sem vinna utandyra, meðal annars við björgunarstörf. Hins vegar eru það viðbrögðin með áherslu á hringrásarhagkerfi og græn störf sem þarf að huga að því þrátt fyrir að aukin tæknivæðing sé velkomin og nauðsynlegur stuðningur við hringrásarhagkerfið og græn störf verður að tryggja að vinnuverndarsjónarmið fái vægi svo til verði örugg og heilbrigð störf.

Almennar og sértækar ráðleggingar

Í skýrslunni er bæði að finna almennar og sértækar ráðleggingar til vinnueftirlitanna um aðgerðir sem hægt er að grípa til í bæði náinni og fjarlægri framtíð. Skýrslan dregur fram sjónarmið Norðurlandanna í bæði alþjóðlegu og svæðisbundnu tilliti og er ætlað að skapa umræðu- og samstarfsgrundvöll á milli Norðurlandanna til að geta í sameiningu tekist á við vinnuverndaráskoranir framtíðarinnar til að tryggja örugg, heilbrigð og sómasamleg störf fyrir alla.