Fréttir

Ályktun stjórnar Vinnueftirlitsins vegna vinnuslyss 14 ára barns

18.5.2016

Þann 9. maí 2016 ályktaði stjórn Vinnueftirlits ríkisins:

Stjórn Vinnueftirlits ríkisins harmar þau vinnubrögð lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, að hafa með aðgerðarleysi ekki sinnt rannsóknarskyldu á alvarlegu vinnuslysi 14 ára barns, með þeim afleiðingum að meint brot atvinnurekanda á vinnuverndarlöggjöf fyrndust í höndum hans. En slík brot fyrnast á 2 árum þar sem þau varða eingöngu sektum.

Um var að ræða vinnuslys sem leiddi til varanlegs líkamstjóns, en Vinnueftirlit ríkisins kærði meint brot á vinnuverndarlöggjöfinni til lögreglustjórans þar sem stofnunin mat það svo að um alvarleg brot væri um að ræða og skýr tengsl milli þeirra og slyssins. Þau meintu brot sem um ræðir var að fela 14 ára barni að vinna við hættulega vél á 12 tíma næturvöktum sem hafði þær afleiðingar að barnið slasaðist alvarlega í vélinni í lok næturvaktar, en það að fela 14 ára barni slík störf er með öllu bannað skv. vinnuverndarlöggjöfinni.  

Stjórn Vinnueftirlits ríkisins beinir því til ákæruvaldsins í landinu að taka brot á vinnuverndarlöggjöfinni, sem kærð eru af Vinnueftirliti ríkisins, alvarlega, sinna rannsóknarskyldu og koma í veg fyrir að þau falli niður vegna fyrningar.