Fréttir

Alþjóðadagur heyrnar

3.3.2020

Heynardagur_merki_adila

Er tóneyrað með fulla heyrn?

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, fagnar alþjóðadegi heyrnar ár hvert og verður
„Dagur heyrnar“ 2020 haldinn hátíðlegur á Íslandi þriðjudaginn 3. mars.

Af því tilefni sameinast Heyrnar-og talmeinastöð Íslands (HTÍ), Sinfóníuhljómsveit Íslands og Vinnueftirlitið um fjölmiðlaviðburð sem felst í mælingum á heyrn meðlima hljómsveitarinnar og fæst þá væntanlega svar við spurningunni sem er yfirskrift þessarar fréttar. Einnig verða gerðar hávaðamælingar í starfsumhverfi tónlistarfólks Sinfóníunnar. Tilgangurinn er að vekja athygli á heyrn, heyrnarheilsu og mikilvægi heyrnarverndar alla ævina á enda. Sinfónían er einmitt í fararbroddi þegar kemur að heyrnarvernd og hljóðvist starfsfólks síns, sem eðlilegt má telja.

Markmið dagsins er að vekja athygli á mikilvægi heyrnar og heyrnarverndar, þeim vandamálum sem heyrnartap og heyrnarleysi veldur í heiminum sem og hlutverki heilbrigðisstétta í skimun, greiningu og meðferð heyrnarvandamála.

Þema „Dags heyrnar“ heyrnar í ár, 2020, er „Hearing for Life“ eða ,,Heyrum alla ævina“. Upphaf atburða „Dags heyrnar“ verður þriðjudaginn 3. mars í Hörpu og hefst kl. 11.30 með kynningu Kristjáns Sverrissonar forstjóra HTÍ, Láru Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra Sinfóníunnar og Sigurðar Einarssonar sérfræðings hjá Vinnueftirlitsins.

Heyrn og heyrnarvandamál

Á milli 15 og 20 þúsund Íslendingar eru með skerta heyrn og þurfa heyrnarbætandi aðgerðir til að lifa óheftu lífi. Með öldrun þjóðarinnar stækkar þessi hópur hröðum skrefum. Auk öldrunar eru hávaði og sjúkdómar helstu orsakavaldar heyrnarskerðingar hér á landi. Heyrnarskerðing getur haft veruleg áhrif á líf fólks allt frá barnsaldri og til æviloka. Mikilvægi heyrnar er stórkostlegt fyrir málþroska og skólagöngu barna. WHO leggur áherslu á að heilbrigðisyfirvöld og almenningur séu meðvituð um vandamálið og tryggi skimun á heyrn nýbura og barna sem komast á skólaaldur, reglulegar heyrnarmælingar og gott aðgengi að heyrnarbætandi aðgerðum og úrræðum, svo sem læknisþjónustu, heyrnar- og hjálpartækjum, kuðungsígræðslu o.fl., fyrir alla aldurshópa.

Skilaboð WHO eru: Heyrnarskerðing - ekki hömlun! Heyrum alla ævina!

Frekari upplýsingar:

Tengiliðir:

Kristján Sverrisson, sími: 867 1726,
Lára S Jóhannsdóttir, sími: 860 6440
Sigurður Einarsson, sími: 550 4600