Fréttir

Áherslupunktar um vinnuumhverfi á óvissutímum

3.4.2020

COVID-19 faraldurinn snertir okkur öll og sömuleiðis þau efnahagslegu áhrif sem honum fylgja. Hvort tveggja hefur áhrif á líðan okkar. Þær aðstæður sem nú hafa skapast gera það að verkum að ýmsar áhyggjur kvikna og eru þær með okkur hvort sem við erum heima eða í vinnunni. Margir þurfa að sinna vinnu sinni við erfiðar aðstæður þar sem hætta er á smiti og aðrir vinna að heiman sem aftur getur valdið togstreitu á milli vinnu og einkalífs. Enn aðrir sjá fram á að missa störf sín eða að horfa á eftir vinnufélögum sem hefur verið sagt upp.

Við stöndum frammi fyrir því að vinnuumhverfið er víða breytt til skamms eða lengri tíma og við það getur skapast andrúmsloft blandið óvissu og óöryggi. Þess vegna er mikilvægt að hver og einn hugi að eigin líðan og líðan annarra á vinnustaðnum. Kvíði tengdur heilsu og fjárhagsáhyggjum getur dregið úr vinnuafköstum og einbeitingu. Fjárhagsleg ábyrgð á fyrirtækjum og mannaforráð þegar illa árar er sömuleiðis verulegur streituvaldur.

Ábyrgð atvinnurekenda er meðal annars fólgin í því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamleg starfsskilyrði og stuðla þannig að góðri heilsu og vellíðan starfsfólks, en verulega reynir á þessa þætti nú þegar samfélagið er allt úr skorðum. Ábyrgð atvinnurekenda er eftir sem áður sú sama.

Það sem hver og einn getur gert til að stuðla að góðu og uppörvandi andrúmslofti er að leggja sig fram um jákvæð samskipti. Að sýna gott fordæmi, vera til staðar fyrir samstarfsfólk, þegar á þarf að halda, og veita félagslegan stuðning getur virst smávægilegt en er í raun og veru stórt framlag til vinnustaðarins, ekki hvað síst á svona tímum.

Gera má ráð fyrir því að í mörgum fyrirtækjum muni þurfa að sýna sveigjanleika í rekstri og bregðast skjótt við nýjum aðstæðum á vinnumarkaði. Mikilvægt er að stjórnendur hugi að því að draga úr óvissu meðal starfsmanna og koma þannig í veg fyrir óþarfa álag sem getur leitt til streitu. Þetta er hægt að gera með markvissri og ábyrgri upplýsingagjöf. Einnig er mikilvægt að huga að því að virkja krafta allra starfsmanna til að finna lausn á þeim vanda sem kann að steðja að og ýta þannig undir samheldni á vinnustaðnum. Mikilvægt er að starfsfólk finni að á það sé hlustað og það hafi möguleika á að taka þátt í ákvörðunum sem varða þeirra störf, ekki síst nú þegar á móti blæs.

Leggja ætti sérstaka áherslu á eftirfarandi þætti:

 • vandaða stjórnunarhætti.
 • virðingu.
 • trúnað.
 • samheldni.
 • markvissa og ábyrga upplýsingamiðlun þannig að óþarfa óvissu sé eytt.
 • skilning á því ástandi sem ríkir í samfélaginu og að það snerti fólk.
 • skýra stefnu fyrirtækis og að hlutverk starfsmanna séu skýr.
 • gott jafnvægi á milli vinnu og einkalífs og að leitað sé lausna þar að lútandi fyrir þá sem vinna heima.
 • samkomulag um hvaða verkefni sé raunhæft að vinna í fjarvinnu.
 • að gæta að vinnu- og hvíldartíma starfsfólks.
 • leita nýrra leiða til að ýta undir uppbyggilega umræðu innan vinnustaða um stöðu mála á tímum samkomubanns og leita eftir hugmyndum starfsmanna um það sem betur mætti fara.
 • að allir starfsmenn hafi tækifæri til að taka virkan þátt í umræðum og ákvörðunum, sem tengjast heilsu og öryggi á vinnustaðnum, og geti haft frumkvæði að úrbótum.
 • stjórnendur sýni gott fordæmi hvað varðar samskipti og ábyrga stjórnunarhætti.
 • að höfð sé milliganga um að veita ráðgjöf þeim sem á þurfa að halda.
 • að stjórnendum og starfsfólki sé veittur félagslegur stuðningur.