Fréttir

Áhættumat vegna smithættu og viðbrögð vinnustaða við afleiðingum veikinda starfsfólks á vinnustað

19.2.2020

Atvinnurekendur þurfa að meta áhættu á mögulegum smitleiðum vegna nýrrar tegundar kórónaveiru, COVID-19 (áður nefnd 2019 -nCoV). Á þetta sérstaklega við um heilbrigðis- og umönnunarstéttir en á einnig við um aðra vinnustaði þar sem starfsfólk er í samskiptum við mikið af fólki.

Þarf meðal annars að meta áhættu af ferðalögum starfsmanna á vegum atvinnurekenda ásamt því að meta hvort starfsmenn annarra vinnuveitanda eru að vinna á sömu starfsstöð, s.s. starfsmenn starfsmannaleigna eða verktaka.

Í kjölfarið þarf að gera viðeigandi viðbragðsáætlun og upplýsa starfsfólk um þær ráðstafanir sem vinnustaðurinn hyggst grípa til í varúðarskyni til að draga úr hættu á smiti og einnig þær sem grípa skal til komi veikindi upp á meðal starfsmanna.

Fara eftir leiðbeiningum Embættis landlæknis

Á vef Embættis landlæknis eru ítarlegar upplýsingar um COVID-19 veiruna ásamt leiðbeiningum um hvernig unnt er að verjast smiti.

Þar eru m.a. leiðbeiningar til framlínustarfsmanna í atvinnulífinu vegna veirunnar, þ.m.t. gátlisti, handþvottur og handsprittun, fyrstu viðbrögð, eftirlit með þeim sem kunna að komast í návígi við smitaða, sótthreinsun og meðhöndlun búnaðar. Einnig eru þar nær daglega stöðuskýrslur um óvissustig vegna kórónaveirunnar COVID-19.

Mikilvægt er að hvetja starfsmenn til að fara eftir leiðbeiningum til að verjast smiti og að mæta ekki til vinnu hafi þeir grun um að hafa sýkst af veirunni.

Viðbragðsáætlanir til að tryggja órofinn rekstur

Vinnueftirlitið mælir með að fyrirtæki og stofnanir hafi viðbragðsáætlun á vinnustað, komi upp sú staða að stór hluti starfsmanna veikist þannig að geti ekki mætt til vinnu. Markmið slíkrar viðbragðsáætlunar er að tryggja fumlaus viðbrögð allra hlutaðeigandi við að halda nauðsynlegri starfsemi fyrirtækja eða stofnana gangandi við slíkar aðstæður.

Slíkri áætlun er þannig jafnframt ætlað að koma í veg fyrir óhóflegt álag á þá starfsmenn sem eru vinnufærir og draga þar með úr streitu og jafnvel kvíða starfsmanna. Tilgangurinn er einnig að koma í veg fyrir að starfsmenn finni sig knúna til að mæta veikir til starfa en þannig er komið í veg fyrir frekari smithættu.

Við gerð slíkrar viðbragðsáætlunar þarf m.a. að huga að og skilgreina:

  • Hvaða hluta starfsemi vinnustaðarins þarf að halda gangandi við slíkar aðstæður.
  • Eru nægilega margir starfsmenn þjálfaðir til að taka við þeim störfum sem mega ekki liggja niðri.
  • Hvaða starfsmenn þarf að þjálfa til að taka við þeim störfum sem mega ekki liggja niðri.
  • Ráðstafanir sem þarf er að gera til að fá afleysingafólk, komi til þess að enginn starfsmaður geti sinnt nauðsynlegum störfum innan vinnustaðarins.
  • Hvaða hluta starfsemi vinnustaðarins má jafnvel loka.
  • Hvaða verkefni mega bíða þannig að starfsfólk sem sinnir þeim verður ekki leyst af eða það þurfi að sinna öðrum verkefnum sem mega ekki bíða án þess að hafa áhyggjur af daglegum störfum sínum.
  • Skilgreina hvernig stjórnendur og aðrir lykilstarfsmenn verða leystir af komi til veikinda þeirra.
  • Ráðstafanir þegar ástandi léttir við að vinna þau verkefni sem biðu.

Mikilvægt er að kynna viðbragðsáætlanir vel fyrir starfsmönnum þannig að þeir viti hvernig bregðast skuli við, komi upp sú staða að meiri hluti starfsmanna komist ekki til vinnu vegna veikinda eða vegna þess að þeir hafi verið settir í sóttkví.

Þá eru mikilvægar upplýsingar stöðugt að birtast á vefjum Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).