Fréttir

ADR – Flutningur á hættulegum farmi á vegum

16.10.2015

Á hverju ári er flutt inn fleiri þúsund tonn af varningi sem flokkast sem hættulegur farmur. Þegar eldsneyti sem er sá hættulegi farmur sem fluttur er í mestu magni er tekið með hækkar sú tala umtalsvert. Þessi varningur kemur að mestu leyti til landsins með skipum en fer síðan í dreifingu með sendibílum, flutningabílum og tankbílum um höfuðborgarsvæðið og út á land og um nánast alla landsbyggðina. Strandsiglingar hafa verið teknar upp að einhverju marki en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort magn hættulegra efna í flutningi á vegum hafi minnkað við það.

Magn hættulegra efna sem flutt er til landsins getur verið mismunandi milli ára. T.d. hefur verið mikil sveifla í magni á innfluttu sprengiefni eftir hversu miklar framkvæmdir hafa verið í gangi. Þá er núna farið að nota sprengiefni við jarðgangagerð sem framleitt er á staðnum í göngunum. Þá þarf að flytja hættuleg efni á staðinn en ekki sprengiefni.

Af öðrum sprengifimum farmi má nefna mikið magn skotelda eða flugelda sem fluttur er um land allt fyrir áramótin.

Flutningur á ADR vöru í stykkjataliFjölbreytileiki hættulegra efna í flutningi er mikill. Þau eru flutt sem stykkjavara í kössum, brúsum, tunnum og brettatönkum. Þar er um að ræða m.a. eldfim efni, efni sem mynda eldfimar lofttegundir við snertingu við vatn, eitthvað af sjálftendrandi efnum, oxandi efni, eitruð efni og mikið magn af ætandi efnum. Mjög lítið er flutt af geislavirkum efnum.

Í tönkum er flutt eldsneyti eins og bensín og dísilolía. Einnig er flutt gas (lofttegundir) eins og kolsýra og köfnunarefni í tönkum. Nokkuð er um að sýrur séu fluttar í stórum gámatönkum. 

Strangar reglur gilda um flutning á hættulegum farmi. Umbúðir þurfa að vera viðurkenndar og merktar. Með farminum þurfa að fylgja flutningsskjöl með upplýsingum um hvað verið er að flytja og hvernig bregðast eigi við ef óhöpp verða. Þá er krafa um slökkvitæki og margs konar neyðarbúnað. Merkja þarf ökutæki sem flytja hættulegan farm. Við flutning í tönkum þarf að merkja með nákvæmum upplýsingum um hvað verið er að flytja og um hætturnar sem stafa af efnunum. Tankar eru skoðaðir og þrýstiprófaðir reglulega. Í reglunum eru ákvæði um hvað má ekki flytja saman á ökutæki. T.d. má ekki flytja saman dýnamít og hvellhettur, ekki eitruð efni eða smitandi efni með matvöru, neytendavöru eða fóðurvöru og ekki efni sem geta hvarfast á hættulegan hátt við hvert annað. T.d. ef 15% klórlausn og sýra blandast saman myndast eitrað klósgas. 

Flutningabíll að flytja ADR vöruÖkumenn sem flytja hættulegan farm þurfa sérstök réttindi og sækja námskeið til að öðlast þau, oft nefnd ADR-réttindi/ADR-námskeið. Allir þurfa að sitja þriggja daga grunnnámskeið sem veitir þeim réttindi til að flytja flestan hættulegan farm sem stykkjavöru. Ef menn ætla að flytja hættulegan farm í tönkum þarf tveggja daga réttindanámskeið til viðbótar við grunnnámskeiðið, til að flytja sprengifim efni eins og sprengiefni og skotelda/flugelda þarf eins dags viðbótarnámskeið og eins dags viðbótarnámskeið þarf til að öðlast réttindi til að flytja geislavirk efni. Þó nokkuð er um að menn séu að ná sér í þessi réttindi vegna atvinnuleitar erlendis en möguleikar á atvinnu við akstur við vöruflutninga eykst verulega með þessi réttindi. Réttindin gilda í fimm ár en þá þarf að sækja endurmenntunarnámskeið, m.a. annars vegna þess að reglurnar eru endurskoðaðar og breytast alltaf á tveggja ára fresti.

Þó reglurnar séu strangar og eftirlit t.d. með tönkum gott þá geta orðið slys. T.d. fór gámatankur með saltsýru að leka vegna tæringar á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki en engin slys urðu á fólki eða umhverfinu vegna réttra viðbragðra lögreglu og slökkviliðs.  
Saltsýruleki á SauðárkrókAthygli vekur hversu fáir endurnýja réttindin en nú hefur lögreglan hert eftirlitið með m.a. réttindum bílstjóra sem flytja hættulegan farm þannig að e.t.v. á þetta eftir að breytast.

Tölulegar upplýsingar fyrir 2014:

Námskeið

ADR-endurmenntun

Fjöldi sem átti að endurnýja* Fjöldi sem endurnýjaði
ADR-grunnnámskeið 131 47 (36%)
ADR-tankanámskeið 81 37 (45%)
ADR-sprengifim efni 53 18 (34%)
ADR-geislavirk efni 4 0 (0%)

*Brottfall vegna aldurs er ekki tekið með.

ADR stendur fyrir á frönsku Accord Européen Relatif au Transport International des Marchandise Dangereuses par Route eða á ensku European Agreement Concerning the International Carriage of Dangerous Goods by Road eða á íslensku Evrópu samkomulag um alþjóðlega flutninga á hættulegum farmi á vegum. http://www.unece.org/trans/danger/publi/adr/adr_e.html 

Þetta samkomulag hefur gilt lengi í Evrópu um flutning á hættulegum farmi á vegum á milli landa, þ.e. alþjóðlega flutninga en árið 1994 tók Evrópubandalagið upp samkomulagið sem samræmdar reglur sem síðar gilda á öllu Evrópsku efnahagssvæðinu um flutning bæði á milli landa og innanlands í öllum löndunum. Þar með tóku þessar reglur gildi á Íslandi, reyndar í áföngum. 

Í dag er í gildi reglugerð nr. 1077/2010 með síðari breytingum um flutning á hættulegum farmi á vegum