Heilsutengd lífsgæði - HL-Prófið

Heilsutengd lífsgæði eru einn lykilþáttur sem fylgjast þarf með þegar heilsa og líðan fólks er skoðuð í þverskurði eða yfir tíma.  Þetta gildir t.d. heilsu og líðan  starfsfólks á vinnustöðum, mat á líðan fólks í starfsendurhæfingu, eða í meðferð vegna sjúkdóma.

HL-Prófið

Prófið er ætlað til notkunar af fagaðilum en fá má aðgang að því með senda póst á kristinn@ver.is

Ekki er tekinn kostnaður fyrir notkun prófsins.

Nánar um heilsutengd lífsgæði og HL-Prófið

Almenn lífsgæði má skilgreina sem helstu lífsnauðsynjar, svo sem næringu, skjól og tekjur, til viðbótar huglægum atriðum svo sem ánægjutilfinningu og vellíðan. Heilsutengd lífsgæði eru aftur á móti þau gæði sem tengjast beint heilsunni, takmörkunum hennar, upplifun á henni og því hvernig einstaklingnum finnst honum ganga að njóta lífsins miðað við heilsufarslegt ástand. Að baki því sem kallast heilsutengd lífsgæði liggja því líkamlegir, andlegir og félagslegir þættir sem allir hafa áhrif á það hvernig manneskjan upplifir líf sitt. Því er ljóst að hér er um að ræða fyrst og fremst eigin upplifun manna á gæðum lífsins og því hvernig heilsa þeirra hefur áhrif á þau. Í heilbrigðiskerfinu hefur áherslan skiljanlega verið á að lækna sjúkdóma og koma í veg fyrir þá, en sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að það er ekki nóg að bæta árum við lífið, heldur þarf einnig að gæða árin lífi. Það er ekki alltaf nóg að lækna sjúkdóma, heldur þarf einnig að sjá til þess að manneskjan lifi lífi sem henni finnst innihaldsríkt og þess virði að lifa því.

Af ofangreindum ástæðum er því afar mikilvægt að rannsaka heilsutengd lífsgæði. Það er nauðsynlegt að geta lagt mat á hvaða sjúkdómar raska lífsgæðum mest og hvernig. Þá þarf að rannsaka hvaða lækningar auka lífsgæði mest og hvaða aðgerða er þörf til þess að heildarástand þeirra sem verða fyrir barðinu á sjúkdómum og kvillum verði sem best. Nauðsynlegt er því að skoða í þessu samhengi hvernig heilbrigðiskerfið komi að bestu notum og hvaða þættir í umhverfi á vinnustöðum og annars staðar eru ráðandi um heilsutengd lífsgæði fólks. Af þessum ástæðum var farið af stað með rannsóknarverkefni á Geðdeild Landspítalans á tíunda áratug síðustu aldar undir stjórn Tómasar Helgasonar prófessors í geðlækningum, í samvinnu við fjölmarga aðila. Megináhersla rannsóknarinnar beindist að því að þróa og hanna mælitæki sem væri áreiðanlegt og réttmætt og sem mætti nota til þess að aðgreina lífsgæði sjúkra og heilbrigðra og jafnframt greina áhrif mismunandi sjúkdóma á upplifun sjúklinga á eigin lífsgæðum.  Mælitækið hefur verið notað við að meta árangur endurhæfingar, ýmiss konar meðferðar og hvernig staða starfshópa er.