Óviðeigandi hegðun á vinnustöðum á ekki að líðast

Kynferðislegt áreiti, kynbundið áreiti og ofbeldi á vinnustöðum hér á landi er samfélagslegt vandamál sem getur orsakað mikla vanlíðan þeirra sem fyrir því verða. Einnig skapast mikill kostnaður fyrir samfélagið í formi veikinda, sjúkrahúskostnaðar og jafnvel örorku í alvarlegum tilfellum. Um nokkurt skeið hefur Vinnueftirlitið unnið að fræðslu og kynningu á endurskoðaðri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum en reglugerðin tók gildi í nóvember 2015.

Af þessu tilefni gaf Vinnueftirlitið út tvo fræðslubæklinga, annars vegnar leiðbeiningar fyrir starfsfólk (einnig á pólsku og ensku ) og hins vegnar leiðbeiningar fyrir stjórnendur, mannauðsráðgjafa og vinnuverndarfulltrúa og var þeim dreift um allt land. Vinnueftirlitið leggur áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og skjót viðbrögð svo hægt sé að komast hjá alvarlegum vandamálum af þessu tagi og tekur kynningarefnið mið af þeim áherslum.

Góðir stjórnunarhættir lykil atriði

Ágreiningur á vinnustaðnum vegna mismunandi skoðana getur verið algengur og telst ekki til óviðeigandi hegðunar. Þó er vert að hafa í huga að hvers kyns ágreiningur getur magnast upp og leitt til eineltis, áreitni og ofbeldis sé ekki gripið í taumana. Með einelti er átt við síendurtekna hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður.

Hér á landi hefur 40% starfsfólks í þjónustustörfum orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Undir kynferðislega áreitni flokkast hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu starfsmannsins. Á þetta sérstaklega við ef hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Gildir þá einu um hvort hegðunin sé orðbundin, táknræn eða líkamlegs eðlis.

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, og er í óþökk starfsmannsins flokkast undir kynbundna áreitni en birtingarmynd hennar geta verið niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi athugasemdir svo eitthvað sé nefnt. Af sama skapi er ofbeldi á vinnustöðum skilgreint sem hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.

Samkvæmt rannsóknum eru 50 - 80% gerenda í eineltismálum stjórnendur en allir sem starfa á vinnustaðnum geta verið mögulegir gerendur í umræddum málum og jafnvel utanaðkomandi aðilar einnig ef svo ber undir.

Langvarandi afleiðingar

Árangursríkasta vopnið gegn óviðeigandi hegðun eru góðir stjórnunarhættir en mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir því að alvarleg tilvik áreitni eða ofbeldis geta fallið undir hegningarlög, jafnvel þótt einungis sé um eitt tilvik að ræða. Óviðeigandi hegðun getur staðið í langan tíma áður en þolandinn áttar sig á aðstæðum eða er tilbúinn til þess að ræða óviðeigandi framkomu í sinn garð.

Mikilvægt er að bæði stjórnendur og starfsmenn séu tilbúnir til þess að stöðva neikvæða framkomu á vinnustaðnum áður en hún veldur meiri skaða. Afleiðingar eineltis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustað geta varað lengi þó svo starfsfólk hafi jafnvel skipt um starfsvettvang eða stöðu innan vinnustaðar.

Mikilvægt er að allir vinnustaðir og hagsmunaaðilar kynni sér þau úrræði sem komið geta í veg fyrir að kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eigi sér stað á vinnustöðum hér á landi. 

Hægt er að nálgast fræðsluefni og bæklinga á vef Vinnueftirlitsins, http://vinnueftirlit.is.

Sjá fræðslu- og leiðbeiningarit númer 35 til 36, bæklingarnir eru líka í boði á ensku og pólsku.