Þjónustuaðilar í vinnuvernd

Námskeið vegna viðurkenningar sérfræðinga á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum

Skipulag

Námskeiðið veitir fræðslu um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum og um íslensk lög og reglur á sviði vinnuverndar. Einstaklingar sem sækja námskeiðið skulu hafa hlotið menntun á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðrum sambærilegum sérsviðum og hafa grunnþekkingu til að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna vinnuvistfræðilegra þátta, svo sem eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra og sálfræðilegra þátta í vinnuumhverfi.

Samkvæmt reglugerð nr. 730/2012 er þjónustuaðili sá sem veitir heildstæða eða sértæka þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þjónustuaðili þarf að hafa aðgang að sérfræðingum, eða vera sjálfur sérfræðingur ef hann starfar á eigin vegum. Vinnueftirlitið skal hafa veitt viðurkenningu um að viðkomandi sérfræðingur hafi fullnægjandi þekkingu á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði og að færni sé til staðar til að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum í vinnuumhverfinu. Til þess að fá viðurkenningu Vinnueftirlitsins þurfa sérfræðingar að hafa sótt námskeið sem hér um ræðir.

Fyrir hverja?

Námskeiðið er ætlað einstaklingum sem sækjast eftir viðurkenningu Vinnueftirlitsins til að starfa sem þjónustuaðilar eða sérfræðingar sbr. reglugerð nr. 730/2012.

Hvernig?

Hvert námskeið er tveir og hálfur dagur og byggist upp á fyrirlestrum, myndum, myndböndum og umræðum. Námskeiðinu líkur með skriflegu krossaprófi. Svara þarf 80% af prófinu rétt til að standast það.

Efnisflokkar

  1. Námskeiðið veitir þekkingu á vinnuverndarstarfi í fyrirtækjum.
  2. Námskeiðið veitir þekkingu á áhættuþáttum í; vinnuumhverfi, vinnuskipulagi og við framkvæmd vinnu.
  3. Námskeiðið veitir þekkingu á þeim lögum og reglugerðum sem ná til vinnuumhverfis, öryggis og heilbrigðis starfsfólks.
  4. Námskeiðið veitir þekkingu á forvörnum á vinnustað.
  5. Námskeiðið veitir þekkingu á hlutverki þjónustuaðila.
  6. Námskeiðið veitir þekkingu í gerð skriflegra áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.

Hvenær?

Námskeiðið er haldið í janúar ár hvert. 

Skráning er á http://skraning.ver.is