Námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og verði

Námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og aðra þá sem hafa áhuga á vinnuverndarmálum og vilja bæta hjá sér vinnuumhverfið

Vinnueftirlitið heldur reglulega námskeið um vinnuvernd fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og aðra þá sem hafa áhuga á vinnuverndarmálum og vilja bæta hjá sér vinnuumhverfið. Námskeiðið er á kostnað atvinnurekanda, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  

Námskrá vinnuverndarnámskeiðs fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði

Á námskeiðinu er farið yfir alla helstu málaflokka sem varða vinnuumhverfi starfsmanna s.s. hávaða, lýsingu, inniloft og loftræstingu innanhúss, líkamlega áhættuþætti, félagslega og andlega áhættuþætti heilsuvernd á vinnustað, vinnuslys og slysavarnir og notkun persónuhlífa. Vinnuverndarlögin (46/1980) eru kynnt sem og reglur sem settar eru í samræmi við þau.  

Auk þess er fjallað um hvernig haga skuli gerð áhættumats en árið 2003 voru sett inn í vinnuverndarlögin (46/1980) ákvæði um að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gert sé sérstakt skriflegt áhættumat þar sem áhætta í starfi, með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna, er metin. Einnig gefst þátttakendum kostur á að kynna sér fræðsluefni sem Vinnueftirlitið hefur gefið út en það nýtist vel í störfum öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða. 

Ávinningur af námskeiðinu er stóraukin þekking á vinnuverndarmálum og tækifæri til að bæta hjá sér vinnuumhverfið, fækka slysum og veikindadögum og stuðla almennt að betri líðan starfsmanna. 

Námskeiðin í Reykjavík eru haldin í húsnæði Vinnueftirlitsins, Dvergshöfða 2. 110 Reykjavík, 2. hæð til hægri.  

Námskeiðið er 12 tímar, kennt á tveim dögum frá 9:00 – 16:00  (hádegishlé milli 12:00 og 13:00). Námskeiðsgjald greiðist af atvinnurekanda.

Námsefni í sömu röð og á dagskrá námskeiðsins:

Upplýsingar um dagsetningar, staðsetningar, verð og skráningu á námskeið >> http://skraning.ver.is

Nánari upplýsingar er hægt að fá á skrifstofum Vinnueftirlitsins.