Þjónustuaðilar í vinnuvernd

- upplýsingar um þjónustuaðila og sérfræðinga í vinnuvernd


Námskeið fyrir þá sem sækjast eftir viðurkenningu sem sérfræðingar

 er haldið í Reykjavík  í janúar ár hvert.

Um þjónustuaðila á sviði vinnuverndar

Samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (hér eftir vinnuverndarlögin) ber atvinnurekandi ábyrgð á því að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum þar sem áhættuþættir fyrir öryggi og heilsu starfsfólks eru metnir (áhættumat) og útbúin er áætlun um forvarnir í því skyni að koma í veg fyrir atvinnutengda sjúkdóma og slys.

Þegar gerð áhættumats og áætlun um forvarnir krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsfólk hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi leita aðstoðar þjónustuaðila sem hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa.

 

Viðurkenndur þjónustuaðili er fyrirtæki sem Vinnueftirlitið hefur viðurkennt, á grundvelli reglugerðar nr. 730/2012, og hefur ráðið til sín viðurkennda sérfræðinga eða hefur gert samning við aðra viðurkennda þjónustuaðila eða sérfræðinga, þannig að innan fyrirtækisins sé fullnægjandi þekking til að bregðast við hættum í vinnuumhverfi eða hvers konar öðrum óþægindum vegna vinnuvistfræðilegra þátta á vinnustað.

Viðurkenning þjónustuaðila á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum

Umsækjendur um viðurkenningu sérfræðings og þjónustuaðila þurfa að fylla út umsóknareyðublað (sjá tengla hér að neðan) og senda til Vinnueftirlitsins ásamt fylgigögnum.

  • Allir einstaklingar sem óska eftir að starfa við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fylla út umsóknareyðublað fyrir sérfræðinga.
  • Fyrirtæki sem hyggjast veita þessa þjónustu fylla út eyðublað fyrir þjónustuaðila.

Umsóknir eru metnar á grundvelli reglugerðar nr. 730/2012.
Samkvæmt reglugerð nr. 730/2012 er þjónustuaðili sá sem veitir heildstæða eða sértæka þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þjónustuaðili þarf að vera fær um að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna eðlisfræðilegra, efnafræðilegra, líffræðilegra, vistfræðilegra eða sálfræðilegra þátta. Hann skal hafa aðgang að sérfræðingum, eða vera sjálfur sérfræðingur ef hann starfar á eigin vegum. Skal Vinnueftirlitið hafa veitt viðurkenningu um að viðkomandi hafi fullnægjandi þekkingu á heilbrigðissviði, í félagsvísindum, á tæknisviði eða öðru sambærilegu sérsviði og að færni sé til staðar til að meta og bregðast við hættum eða hvers konar öðrum óþægindum vegna;

  • hreyfi- og stoðkerfis (í því felst m.a. mat á vinnustellingum, vinnuhreyfingum, líkamlegu erfiði t.d. vegna  þungra byrða, eðli og skipulagi vinnunnar t.d. einhæfri vinnu, framleiðslustörfum, kyrrsetuvinnu o.s.frv.)
  • andlegra og félagslegra þátta (í því felst m.a. mat á fjölbreytni verkefna, vinnutíma,  sveigjanleika, sjálfræðis, samskipta og stuðnings í vinnu, sem og forvarnaráætlun vegna eineltis og kynferðislegrar áreitni)
  • vinnu við vélar og tæki (í því felst m.a. mat á öryggi véla og tækja, s.s. tölva, prentara, handverkfæra, færibanda, stórra og smárra vinnuvéla, iðnaðarvéla, landbúnaðarvéla o.fl.)
  • efnafræðilegra þátta (í því felst m.a. mat á varúðarmerktum efnum, s.s. eiturefnum, gasi og hreingerningarefnum; einnig mat vegna annarra efna sem geta verið hættuleg s.s. heits vatns)
  • umhverfisþátta (í því felst m.a. mat á hávaða, birtu, hita, kulda, raka, titringi og líffræðilegum skaðvöldum)

Í umsókn fyrir þjónustuaðila og sérfræðinga skal koma fram á hvaða sviði viðkomandi óskar eftir að starfa sem viðurkenndur sérfræðingur/þjónustuaðili. Umsækjandi merkir í einn reit eða fleiri af þeim fimm flokkum áhættuþátta sem þar koma fram. Nánari upplýsingar um áhættuflokka má nálgast í sérstöku skjali um áhættuflokkana fimm.
Ef að þjónustuaðili er að mati Vinnueftirlitsins fær um að meta og bregðast við hættum í vinnuumhverfi vegna allra þessara þátta hlýtur sá heildstæða viðurkenningu. Ef þjónustuaðili hefur ekki yfir svo víðtækri þekkingu að ráða er heimilt að viðurkenning hans verði takmörkuð við ákveðna tegund starfsemi.

 Ath!
Við mælum með því að opna umsóknarblöðin með Adobe Reader.
Umsóknarblöðin er hægt að vista útfyllt í tölvu notanda með Adobe Reader.

Í 5. grein reglugerðarinnar segir:

„Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnueftirliti ríkisins þó einungis heimilt að viðurkenna einstakling sem sérfræðing samkvæmt ákvæði þessu hafi viðkomandi einstaklingur lokið námi eða námskeiði um gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum sem Vinnueftirlitið viðurkennir á hverjum tíma.“
Í ljósi þessa hefur Vinnueftirlitið útbúið námsskrá fyrir námskeið um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum. Við mat á hæfni sérfræðinga er tekið mið af því hvort gögn um menntun og starfsreynslu uppfylli kröfur námskrárinnar. Þeir sem ekki uppfylla þær kröfur þurfa að sækja námskeið.

Hlutverk þjónustuaðila

Þjónustuaðili skal starfa sem óháður, sérfróður aðili við að greina og meta hættur í vinnuumhverfinu. Hann á að vera atvinnurekendum, fulltrúum þeirra, öryggistrúnaðarmönnum, öryggisvörðum og starfsmönnum til ráðuneytis og ráðgjafar við að skapa sem öruggast og heilsusamlegast vinnuumhverfi, samanber greinargerð með reglugerð nr. 1000/2004 og reglugerð nr. 920/2006.
Þegar atvinnurekandi leitar aðstoðar eða úttektar þjónustuaðila vegna fyrirmæla frá Vinnueftirlitinu tengt kvörtunum um einelti skal þjónustuaðilinn vinna í samræmi við fyrrnefndar reglugerðir sem kveða skýrt á um skyldu atvinnurekanda til að gera áhættumat og áætlun um forvarnir. Við áhættumatið skal meta aðstæður í vinnuumhverfinu sem geta leitt til eineltis í nútíð eða framtíð. Atvinnurekanda ber að grípa til viðeigandi aðgerða í samræmi við niðurstöður áhættumatsins til að draga úr eða koma í veg fyrir slíkar aðstæður. Ef áhættumat liggur þegar fyrir gæti þurft að endurskoða það.
Þótt atvinnurekandi leiti sérfræðiþjónustu að eigin frumkvæði til þess að fá úr því skorið hvort um einelti sé að ræða eða ekki leysir það hann ekki undan þeirri skyldu að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar um forvarnir, þ.e. að gert sé áhættumat og að settar séu skýrar reglur um viðbrögð við einelti ásamt viðbragðsáætlun ef slíkt kemur upp.

Breytingar á starfsemi þjónustuaðila

Af gefnu tilefni skal einnig undirstrikað að ef breytingar verða hjá viðurkenndum þjónustuaðila svo sem að fyrirtæki sameinast eða að starfskraftur, sem viðurkenningunni tengdist, fer til annarra starfa, skal það tilkynnt Vinnueftirlitinu.